Á sunnudaginn var Brúarfoss, nýjasta skip Eimskips, formlega nefnt í hátíðlegri athöfn í Þórshöfn í Færeyjum að viðstöddum starfsmönnum, viðskiptavinum og samstarfsaðilum Eimskips og Faroe Ship.
Á síðasta ári voru Brúarfoss og systurskipið Dettifoss bæði formlega tekið inn í siglingaráætlun Eimskips. Þau eru stærstu gámaskip í sögu íslenska kaupskipaflotans 180 metra löng, 31 metra breið og geta borið 2150 gámaeiningar. Skipin eru umhverfisvænustu skip íslenskra kaupskipa miðað við flutta gámaeiningu og eru sérstaklega útbúin til að minnka losun köfnunarefnisoxíðs (NOx) og brennisteinsoxíð (SOx) út í andrúmsloftið. Stefnt er á að halda einnig formlega nafnahátíð á Íslandi fyrir Dettifoss við fyrsta tækifæri.
Brúarfoss er þriðja og síðasta skipið af þremur sem voru sérstaklega smíðuð í Kína fyrir samsiglingar Eimskips og grænlenska skipafélagsins Royal Arctic Line en með samstarfinu hafa opnast spennandi tækifæri með tengingu Grænlands við alþjóðlegt siglingakerfi Eimskips. Skipin hafa einstaka stjórnhæfni og eru sérstaklega hönnuð til siglinga á Norður-Atlantshafi, eru með ísklassa og uppfylla skipin svokallaðar Polar Code reglur sem eru nauðsynlegar til siglinga við Grænland.
Sjórn Eimskipafélagisins ákvað árið 1914 að tveimur fyrstu skipunum yrði gefin nöfn fossa og voru fyrstu nafngiftirnar Gullfoss og Goðafoss. Þessari meginreglu hefur verið haldið alla tíð síðan þegar því hefur verið við komið. Þetta er því sjötta skipið sem nefnt er Búarfoss í skipaflota Eimskips frá því að fyrsta skipið hlaut nafnið Brúarfoss árið 1927.
Eins og hefð er fyrir þá var það guðmóðir skipsins sem gaf því nafn og var það Eva Rein sem starfað hefur hjá Faroe Ship í Þórshöfn í yfir 50 ár sem fékk þann heiður.