Árið 2015 voru innleiddar reglur um að hámarks brennisteinsinnihald olíu væri 0,1% á ákveðnum hafsvæðum (Emission Control Areas, ECA) og frá þeim tíma hefur Eimskip innheimt umhverfisgjald / low sulphur surcharge eða LSS.
Frá og með 1.janúar 2020 verða innleiddar breyttar alþjóðlegar reglur um brennisteinsinnihald í skipaolíu utan ECA svæða. Þar verður hámarks brennisteinsinnihald olíu 0,5% í stað 3,5%.
Reglugerðin á rætur að rekja til samþykktar Sameinuðu þjóðanna um umhverfisvænni sjóflutninga, sem framfylgt er af Alþjóða siglingamálastofnuninni (International Maritime Organization). Tilgangur reglugerðarinnar er að gera skipaflutninga umhverfisvænni með því að draga úr innihaldi brennisteins í brennsluolíu.
Á þessu korti má sjá nánari útlistun:
Bláa svæðið er 0,1% SOx frá 1.1.2015
Hvíta svæðið er 3,5% SOx til 1.1.2020 og 0,5% eftir það
Það er ljóst að með þessum breytingum mun olíukostnaður aukast sem hefur í för með sér endurskoðun á umhverfisgjaldi (LSS). Félagið þarf að undirbúa skip fyrir breytingarnar með hreinsun á eldsneytistönkum nokkru áður en nýju reglurnar taka gildi og því tekur ný gjaldskrá gildi frá og með 1. desember 2019. Eins og áður mun umhverfisgjaldið þróast í takt við olíuverð.
Eimskip leggur metnað sinn í að sýna ábyrgð og vera í fararbroddi sem þjónustufyrirtæki í flutningum í sátt við samfélagið og umhverfið og þróast í takt við kröfur umheimsins gagnvart umhverfismálum.
Nánar verður tilkynnt um þessar breytingar þegar nær dregur en hægt er að nálgast frekari upplýsingar um reglur varðandi brennisteinsinnihald skipaolíu hér.