Fara á efnissvæði

Skipulagsbreytingar verða gerðar hjá Eimskip í dag þar sem Björn Einarsson verður framkvæmdastjóri á nýju samþættu Sölu og viðskiptastýringarsviði. Sviðinu tilheyra viðskiptaeiningarnar innflutningur og útflutningur sem áður tilheyrðu Sölusviði og flutningsmiðlunin TVG-Zimsen sem er dótturfélag Eimskips.

Markmið breytinganna er að einfalda skipulag og ná fram samþættingu í öflugu þjónustuframboði og vörumerkjum félagsins, áframhaldandi hagræðing ásamt því að efla enn frekar sókn með heildar lausnir fyrir markaðinn.

Í tengslum við þessar skipulagsbreytingar mun fækka um 14 stöðugildi hjá Eimskip og TVG-Zimsen.

Breytingarnar taka gildi nú þegar.

Stjórnendur á nýja sviðinu eru auk Björns, Sara Pálsdóttir sem leiðir Innflutning, Sigurður Orri Jónsson sem leiðir Útflutning og Elísa D. Björnsdóttir sem tekur við sem framkvæmdastjóri TVG-Zimsen af Birni Einarssyni á þessum tímamótum. Þá leiðir Arndís Aradóttir Tollskýrslugerð og farmskrá og Andrés Björnsson mun leiða Viðskiptaþróun og kostnaðareftirlit.

Samhliða þessum breytingum hefur félagið komist að samkomulagi við Matthías Matthíasson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Sölusviðs, um að láta af störfum og eru honum færðar þakkir fyrir framlag sitt til félagsins. 

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri:

„Með þessari breytingu erum við að einfalda skipulag og verðum betur í stakk búin til að auka snerpu í samskiptum og þjónustu við viðskiptavini okkar. Við höldum áfram á vegferð hagræðingar og samþættingar á sama tíma og við eflum slagkraftinn í sókninni. Þá verðum við í enn betri stöðu til að veita viðskiptavinum, fyrirtækjum og einstaklingum, góða þjónustu og heildarlausnir sem byggja meðal annars á gámasiglingakerfinu okkar sem er það öflugasta til og frá Íslandi.“

Björn Einarsson, framkvæmdastjóri Sölu og viðskiptastýringarsviðs:

„Ég er fullur tilhlökkunar að takast á við tækifærin sem felast í samþættingunni á nýju sviði. Með öflugri liðsheild okkar reynslumikla starfsfólks, sterkum vörumerkjum og þeim styrku stoðum sem félagið okkar byggir á munum við viðhalda góðri þjónustu en jafnframt sækja fram af metnaði og bjóða uppá bestu lausnir hverju sinni fyrir viðskiptavini okkar og markaðinn í heild sinni. “

Björn Einarsson hefur starfað hjá Eimskip og dótturfélögum í 14 ár m.a. sem framkvæmdastjóri Eimskips í Evrópu með aðsetur í Hollandi en síðustu árin hefur hann starfað sem framkvæmdastjóri TVG-Zimsen og hefur því víðtæka þekkingu á starfsemi félagsins á alþjóðavísu og flutningageiranum.

Björn, sem er fimm barna faðir, er með BA í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og er giftur Kötlu Guðjónsdóttur.

Nánari upplýsingar veitir Edda Rut Björnsdóttir,  markaðs- og samskiptastjóri í síma 825-3399 eða investors@eimskip.is