Bilun kom upp í aðalvél í Lagarfossi í gær þar sem skipið var statt um 230 sjómílur suðvestur af Garðskaga á leið sinni til Halifax í Kanada. Áhöfnin reyndi að gera við bilunina um borð en þegar það gekk ekki var óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar. Varðskipið Þór er nú á leið sinni á staðinn þar sem skipið er vélarvana til að taka það í tog til Íslands. Starfsmenn Eimskips munu hafa samband við þá viðskiptavini sem eiga vörur um borð til að gera frekari ráðstafanir. Veður er gott á staðnum og hvorki skip né áhöfn eru í hættu.
Áætlað er að skipin verði komin til hafnar í Reykjavík á gamlársdag.