Eimskip og Ernst Russ AG í Þýskalandi hafa í gegnum félagið Elbfeeder Germany keypt 1.025 gámaeininga skip. Skipið, sem er smíðað árið 2009, mun hljóta nafnið Bakkafoss og verður sjötta skipið í sögu félagsins sem ber það nafn. Með kaupunum stækka fyrirtækin enn frekar vel samsett eignasafn sitt í gámaskipum, en nú þegar eru sjö gámaskip í sameiginlegri eigu félaganna í gegnum fyrirtækin Elbfeeder og Feederstar. Eimskip mun leigja skipið og áætlað er að það komi í þjónustu félagsins á öðrum ársfjórðungi og muni sinna siglingum á Norður-Ameríkuleið félagsins.
Með Bakkafossi styrkir Eimskip enn frekar þjónustu sína í Trans-Atlantic flutningum með stærra og öflugra skipi á þessari mikilvægu flutningsleið. Í dag eru fjögur skip á Norður-Ameríkuleið félagsins en með kaupunum ráðgerir félagið að fækka um eitt skip í rekstri en viðhalda sambærilegri afkastagetu í siglingakerfinu.