Arna Lára Jónsdóttir hefur verið ráðin svæðisstjóri Eimskips á Vestfjörðum. Arna Lára sem lauk MS gráðu í Alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði frá Háskóla Íslands á árinu hefur starfað sem verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands síðustu 13 ár. Hún mun taka við nýja starfinu í upphafi næsta árs.
Böðvar Örn Kristinsson, forstöðumaður innanlandsflutninga hjá Eimskip:
„Við erum mjög ánægð að fá Örnu Láru til liðs við Eimskip en reynsla hennar úr nýsköpunarmálunum mun koma að góðum notum hjá okkur enda flutningageirinn að þróast heilmikið. Við erum einnig afar ánægð að fá konu í hóp svæðisstjóra en Arna Lára er fyrsta konan til að gegna því starfi hjá Eimskip. Vestfirðir eru afar mikilvægt svæði í okkar áætlunarflutningum og ekki síður fiskflutningum. Með aukinni netverslun sjáum við einnig tækifæri í að þjónusta Vestfirðinga enn betur þegar kemur að smærri sendingum.“