Við leggjum okkur fram við að veita reglulega upplýsingar um stöðuna á vöruflutningum. Allar siglinga- og dreifileiðir okkar eru opnar og lokun landamæra víða nær ekki til vöruflutninga. Það eru enn tafir við ákveðin landamæri á meginlandi Evrópu og það sama erum við farin að sjá í flutningum milli Kanada og Bandaríkjanna. Við viljum því ítreka að það er gott að huga að bókunum með lengri fyrirvara en áður og taka tillit til þessa í samskiptum við birgja. Í innanlandsflutningum hefur allt gengið samkvæmt áætlun þó verið sé að vinna við erfiðari skilyrði en oft áður til dæmis með tilliti til afhendingar á vöru og samskipta milli fólks. Það hefur þó gengið vel í samvinnu við viðskiptavini.
Við fylgjumst vel með þróuninni og höfum unnið að sviðsmyndagreiningum til að gera okkur kleift að taka ákvarðanir og bregðast eins vel og hægt er við breyttum aðstæðum hverju sinni og tryggja þannig góða þjónustu og afhendingar öryggi.
Við vitum að það þarf að takast á við ýmsar áskoranir þessa dagana og margar hverjar mjög erfiðar. Við sendum góðar kveðjur til ykkar og bendum þér á að hafa samband við þinn tengilið hjá Eimskip ef þig vantar ráðgjöf eða upplýsingar og við aðstoðum með ánægju.