Í ljósi frétta um lokun landamæra í löndum eins og Kína, Ítalíu, Danmörku, Póllandi og Noregi vill Eimskip koma því á framfæri að allar siglinga- og dreifileiðir félagsins innan Evrópu og Norður-Ameríku eru opnar og þessi lokun landamæra nær ekki til vöruflutninga.
Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri:
„Heildarflutningakeðjan hjá Eimskip er að virka, skipin okkar eru að sigla, flutningabílarnir að keyra og viðkomuhafnir okkar eru opnar og við heyrum að yfirvöld í öllum þessum löndum leggja mikla áherslu á að svo verði áfram. Starfsfólk félagsins er mjög meðvitað um hlutverk Eimskips sem mikilvægs innviðafyrirtækis í flutningaþjónustu á vörum til og frá landinu og í dreifingu innanlands og nú nýtum við okkar sterka skrifstofunet um allan heim til að tryggja vöruflæði til landsmanna.“