Fara á efnissvæði

Hagnaður Eimskips fyrstu sex mánuði árins 2010 er umfram væntingar.  Rekstrarhagnaður (EBITDA) var jákvæður um 3,4 milljarða ISK, (EUR 19,9 m). Hagnaður eftir skatta var 1,3 milljarðar ISK, (EUR 7,5 m). Heildareignir félagsins í lok júní voru 46 milljarðar ISK, (EUR 291 m) og er eiginfjárhlutfallið nú 54%.  Vaxtaberandi skuldir eru 12 milljarðar ISK, (EUR 78 m). 

2. ÁRSFJÓRÐUNGUR

Rekstrarhagnaður (EBITDA) á öðrum ársfjórðungi er jákvæður um 2,1 milljarða ISK, (EUR 12,2 m) og hagnaður eftir skatta 1,1 milljarður ISK, (EUR 6,2 m).  Allar rekstrareiningar félagsins eru að skila afkomu umfram væntingar.   Flutningamagn á öðrum ársfjórðungi til og frá Íslandi jókst um 11% á milli ára og er það í fyrsta sinn síðan á fyrri helmingi ársins 2008 sem aukning er í flutningum.   Flutningar hafa þó dregist verulega saman og er magnið nú svipað og það var árið 2000.

GYLFI SIGFÚSSON FORSTJÓRI:

Þrátt fyrir mjög erfið rekstrarskilyrði hefur tekist að snúa afkomu félagsins við.   Reksturinn hefur verið sniðinn að breyttum markaðsaðstæðum og er árangur þeirrar vinnu að líta dagsins ljós.  Starfsemi Eimskips krefst mikilla fastafjármuna og er mikilvægt að afkoman geti staðið undir endurnýjun þeirra.  Á síðustu árum hefur félagið ekki varið miklum fjármunum í  fjárfestingar tengdum flutningastarfsemi.  Sjóðsstaðan er góð og er félagið nú í stakk búið að endurnýja eignir.  Það er mjög mikilvægt fyrir Eimskip að viðhalda grunnstoð félagsins sem er, flutningakerfið á Norður Atlantshafi, til að tryggja viðskiptavinum áreiðanlega og góða þjónustu.

UM EIMSKIP

Í dag er Eimskip með starfsemi í 16 löndum, með 17 skip í rekstri og hefur á að skipa 1.250 starfsmönnum en af þeim vinna um 730 á Íslandi.  Um helmingur af tekjum félagsins kemur frá starfsemi utan Íslands.  Stefna félagsins er að bjóða viðskiptavinum félagsins alhliða flutningaþjónustu á Norður Atlantshafssvæðinu ásamt því að bjóða víðtæka og öfluga frystiflutningsmiðlun.