Eimskip hefur gert samning við norska fyrirtækið Blueday Technology AS um hönnun og smíði á búnaði til að landtengja skip við rafmagn við Sundahöfn, þekkingarfyrirtækið Efla mun hafa umsjón með verkinu. Einnig hefur verið gerður samningur við fyrirtækið SairNico um breytingu á rafstýringum um borð í nýjustu skipum Eimskips, Brúarfossi og Dettifossi. Landtengingin leysir af hólmi hávaðasama ljósavél sem knýr rafmagn og nauðsynlegan búnað um borð og mun landtengingin koma til með að minnka olíunotkun um 160 tonn á ári sem jafngildir 24 hringjum í kringum jörðina á fólksbíl.
Um er að ræða mikilvægan áfanga í orkuskiptum við Sundahöfn en viljayfirlýsing var undirrituð á síðasta ári á milli Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Faxaflóahafna, Veitna, Reykjavíkurborgar og Eimskips um uppbyggingu og rekstur landtenginga fyrir skip í Sundahöfn.
Þessar breytingar styrkja þá vegferð sem Eimskip er á, að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi sinni um 40% fyrir 2030. Nú þegar hefur kolefnisfótspor verið minnkað niður um 14,7% á hverja flutta gámaeiningu frá 2015.