Áhersla lögð á að tryggja flutningakeðjuna og öryggi starfsmanna
Eimskip hefur gripið til margvíslegra aðgerða síðustu daga og vikur vegna áhrifa COVID-19 víða um heim. Starfsfólk félagsins er mjög meðvitað um hlutverk Eimskips sem mikilvægs innviðafyrirtækis í flutningaþjónustu á vörum til og frá landinu og í dreifingu innanlands.
Meginmarkmið aðgerðanna hafa snúið að því að tryggja öryggi starfsmanna annars vegar og hins vegar að því að tryggja virkni flutningakeðjunnar og þar með þjónustu við viðskiptavini og landsmenn alla. Allar siglinga- og dreifileiðir félagsins innan Evrópu og Norður-Ameríku eru opnar.
Lögð hefur verið sérstök áhersla á það innan félagsins að miðla upplýsingum til starfsfólks og gera starfsfólki kleift að miðla slíku áfram til viðskiptavina.
Dæmi um aðgerðir
- Samskipti milli starfshópa takmörkuð t.d. í skrifstofurýmum, hafnarstarfsemi, vöruhúsum, mötuneyti o.s.frv.
- Aðgengi utanaðkomandi aðila á starfsstöðvar hefur verið verulega takmarkað
- Ákveðnir starfshópar munu vinna heiman frá sér þar sem því verður við komið
- Stóraukin þrif á starfsstöðvum t.d. við vaktaskipti, milli hópa í mötuneyti og þar sem starfsmenn deila atvinnutækjum
- Vinnuferlum hefur verið breytt fyrir starfsfólk sem sinnir útkeyrslu og heimakstri hjá Eimskip innanlands sem og hjá dótturfélaginu TVG-Zimsen til að tryggja öryggi. Sérstaklega hefur verið hugað að afhendingu til viðskiptavina sem eru í sóttkví
- Ferðalög verulega takmörkuð og stóraukin notkun búnaðar til að auka rafræn samskipti fólks t.d. fjarfundabúnaðar, bæði milli starfstöðva og landa
- Takmarka samskipti áhafna skipa félagsins við starfsmenn í viðkomu höfnum í siglingakerfi félagsins eins og kostur er til að tryggja áreiðanleika í siglingakerfinu
- Aukin áhersla á gámastýringu til að tryggja framboð gáma fyrir viðskiptavini sem hefur gengið vel
- Tíð samskipti við birgja og þjónustuaðila sem tengjast flutningakeðjunni
Þessum aðgerðum er ætlað að tryggja að félagið geti haldið uppi sinni víðtæku þjónustu og tryggja afhendingaröryggi eins og kostur er og sinna þannig sinni samfélagslegu ábyrgð sem mikilvægur hlekkur í íslensku samfélagi.
Vert er að hafa í huga að aðstæður geta breyst með skömmum fyrirvara og er félagið mjög meðvitað um það og mun grípa til viðeigandi aðgerða hverju sinni.